Föstudagur, 12. janúar 2007
Stækkun Alcan
Umræðan um stækkun Alcan í Straumsvík hefur gerst sífellt háværari undanfarnar vikur, sem er mjög eðlilegt og ekkert nema gott um það að segja. Mér hefur hinsvegar fundist vanta þær raddir inn í umræðuna sem eru fylgjandi stækkun. Kannski er það af því að við sem erum fylgjandi erum svo bjartsýn og jákvæð í eðli okkar að við trúum ekki öðru en það verði af stækkun og finnst því allt í lagi að hinir fái að rasa út á meðan þeir geta. Kannski er það af því að fjölmiðlum, eins og oft hefur verið rætt um, virðist finnast meira spennandi að birta neikvæðar fréttir. Það má til dæmis sjá á því að þegar Alcan gaf diskinn fræga á öll heimili í Hafnarfirði, þá komu örlitlar tilkynningar í blöðunum um það á lítt áberandi stað og engin mynd. Þegar hinsvegar örfáum diskum var skilað til baka varð þessi gjöf allt í einu orðin að forsíðufrétt og sjónvarpsefni.
Ég er fylgjandi stækkun, en ég er ekki hlutlaus því ég vann í tæp tíu ár hjá Isal og vinn núna hjá Stímir hf, sem sérhæfir sig í þjónustu við álver. En í staðin tel ég mig vita betur en margir aðrir um ýmsar staðreyndir sem snúa að áhrifum stækkunar.
Ég er sem sagt ein af þeim sem gæti átt starfið mitt undir því hvort verði af stækkun eða ekki. Eins og oft hefur komið fram þá er það staðreynd að ef ekki verði af stækkun mun það stytta líftíma álversins, en þó mjög óljóst hve mikið hann muni styttast. Þetta er ekki hótun eins og margir telja, heldur staðreynd sem þarf að vera uppi á borðinu þegar rætt er um stækkunina. Ég er hinsvegar bara ein af fjölmörgum sem þetta á við um. Eins og fram kemur á heimasíðu Alcan, þá námu viðskipti Alcan við fyrirtæki í Hafnarfirði tæpum 2 milljörðum króna. Takið eftir að þetta eru bara fyrirtæki í Hafnarfirði, svo heildartalan til allra íslenskra fyrirtækja er mun hærri. Með tilliti til þessa skil ég ekki hve umræðan snýst mikið um hversu há upphæð kemur til með að renna til Hafnarfjarðarbæjars sjálfs, hún er bara brot af því sem fyrirtæki í Hafnarfirði eru að fá í tekjur frá Alcan, og nota bene fyrirtæki sem borga líka sína skatta og hafa sumhver orðið til vegna starfsemi Isal, eins og Stímir, og önnur eru stærri og tekjuhærri vegna starfseminar, eins og til dæmis Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar sem er móðurfyrirtæki Stímis. Ég er hrædd um að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir hve Isal er stór hluti af samfélaginu okkar.
Þetta er eitt af mörgum rökum fyrir því að ég vil að Alcan fái að stækka, kem með fleiri seinna. Ástæðan fyrir því að það er misjafnt hvort ég skrifa Alcan eða Isal er sú að Isal hefur ekki alltaf verið í eigu Alcan.
Hvet ykkur til að kíkja á http://www.alcan.is/?PageID=208 þar sem mörgum þörfum spurningum er svarað.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.