Mánudagur, 29. janúar 2007
Frjálslynd en þó ekki...
Hvað er það eiginlega að vera frjálslynd? Er það ekki að vissu leiti að vera opin fyrir ýmsum breytingum og öðru. svona andstæðan við að vera íhaldssamur, eða hvað ? Ég tel mig ekki vera mjög íhaldssama, nema kannski um ákveðna hluti eins og að borða hangikjöt á jóladag. Ég held þó að ég sé meira í áttina að vera frekar frjálslynd en styð þó ekki frjálslynda flokkinn, frekar er ég nær því að styðja Sjálfstæðisflokkinn sem á þó að teljast íhaldssamur. Ég er kannski bara svona vitlaus og ekki samkvæm sjálfri mér. En ég get ekkert gert að því, við það verð ég bara að lifa.
Ég hef mikið álit á Margréti Sverrisdóttur og var að vona að hún næði kjöri sem varaformaður flokksins síns, en það varð því miður ekki. Hún er ein af alltof fáum stjórnmálamönnum sem mér þykja trúverðugir og eru ekki bara að segja já og amen við allt og alla í kringum sig. Hinsvegar brá mér frekar við þegar hún gaf það í skyn að ef hún næði ekki kjöri sem varaformaður að þá færi hún jafnvel úr flokknum. Þar kom stór mínus og þykir mér það ekki trúverðugt að gefa svona í skyn. Er frjálslyndi það að boða frjálslyndi en fara svo í fýlu ef maður fær ekki strax það sem maður vill ? Ég hef fulla trú á að Margrét eigi eftir að gera góði hluti í framtíðinni, en hún verður að passa sig að spila rétt úr því sem hún hefur núna. Ef hún ætlar að fara úr flokknum, hefði hún átt að gera það í haust þegar lætin byrjuðu en ekki núna. Ástæðan ætti að vera sú að hún sé ekki sammála stefnu flokksins en ekki bara það að hún fékk ekki það sem hún vill. Fyrst hún hélt áfram í flokknum og tók þátt á Landsþinginu þar sem stefnan var kynnt, hlýtur hún að vera hlynnt þeirri stefnu sem flokkurinn hefur. Þess vegna finnst mér að hún eigi að halda áfram í flokknum og láta til sín taka þar. Ég efast ekki um að hún kemst þar til valda fyrr en seinna og ég hlakka til að sjá meira til hennar. Gæti meira að segja farið svo að þá fengjum við einn flokk sem væri ekki fastur á miðjunni eins og raunin er með flesta eða alla flokka núna.
En frjálslyndi hlýtur að vera eitthvað gott ef það er tekið inn í hófi og í góðu blandi við íhaldssemi, til dæmis væri ég alveg tilbúin að vera aðeins frjálslynd á jóladag og prófa kannski nýtt salat með hangikjötinu eða sætar kartöflur...geri það næst...ef Margrét verður kyrr í flokknum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.