Laugardagur, 10. febrúar 2007
Vinnutími kennara
Það virðist vera viðkvæmt mál fyrir marga að ræða vinnutíma kennara og nú á að fara að gefa út bækling sem útskýrir vinnutíma þeirra og sýna fram á að þeir vinni jafnmarga tíma á ári og aðrir.
Þetta skil ég ekki. Hverjum kemur það við hvað kennarar vinna marga klukkutíma á ári? Hvort sem þeir vinni fleiri klukkutíma eða færri en ég, þá er mér bara nákvæmlega sama. Ef fólk heldur að kennarar hafi það svona gott að vera "alltaf í fríi" af hverju eru þá ekki miklu meiri ásókn í þessar stöður? Ég segji fyrir mig að mér finnst kennarar vera að vinna ótrúlegt starf og það verður held ég alltaf erfiðara og erfiðara að vera kennari. Þeir mega ekkert gera, mega varla eða ekki skamma krakkana en eiga samt nánast að ala þau upp. Það er allskonar aukaálag á kennurum, þeir gera svo miklu meira heldur en að standa fyrir framan hóp af krökkum og þylja upp einhver fræði. Þeir ættu að vera með miklu hærri laun og ættu ekki að þurfa að skila eins mörgum klukkutímum á ári eins og allir aðrir. Þeir þurfa reglulega að hlaða batteríin svo þeir endist í starfi, því við viljum jú helst að það sé ekki miklar kennarabreytingar. Þegar einu sinni eru komnir góðir kennarar viljum við halda þeim. Það ætti frekar að gefa þeim auka dekurdaga reglulega yfir árið.
Ég verð því að segja það að ef þessi bæklingur kemur til með að sýna mér að kennarar vinni jafnmargar klukkustundir á ári og allir aðrir, verð ég fyrir smá vonbrigðum, því ég get svo vel unnt þeim þess að vera í meira fríi en ég.
Athugasemdir
Þeir færu nú líka að fá mannsæmandi laun ef þeir væru ekki alltaf að hóta og fara í verkfall. Öll þessi verkfallsárátta gerir ekkert nema að færa þeim smásigra og gera ekki grundvallrviðhorfsbreytinguna sem þarf. Ekkert af viti á eftir að gerast fyrr en það rennur upp fyrir ráðamönnum að fólk er hætt að ráða sig til kennarastarfa vegna slakra launa (líkt og þegar þeir gáfu sjálfum sér launahækkun, til að geta keppt við einkageirann um hæfa alþingismenn). Breytingin verður aldrei nema á hana verði knúið að utan, en ekki að innan. Það vantar allstaðar gott fólk til starfa og þeir kennarar sem eru hæfir fara leikandi í önnur störf. Hinum hef ég ekki áhyggjur af og ráðamenn þyrftu því að bregðast við flóttanum með grundvallarbreytingum á launauppbyggingu stéttarinnar.
Gott blogg.
Sigfús Örn (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 15:42
Algjörlega sammála því að kennarar er alltaf að vinna erfiðara starf og fyrir lítil laun. Að sama skapi er ég sammála Sigfúsi Erni um að breytingar þurfi að koma utan frá - en þær koma ekki utan frá nema að kennarar láti í sér heyra. Ég get varla sagt að uppi hafi verið hótanir frá kennurum um verkfall lengi, viðræður hafa átt sér stað síðan í fyrrasumar og ekkert að gerast... Á ekki bara að vinna í því að fá breytingar utan frá - með því t.d. að bjóða ráðamönnum að kenna í forföllum einn og einn dag :) Eða samninganefndinni. Það þarf í það minnsta að vinna í því að gera fólki ljóst hvernig ástandið er í skólum landsins og hvernig vinnulag kennara hefur breyst.
Tek undir að þetta er gott blogg.
Sólveig Kristjáns (IP-tala skráð) 10.2.2007 kl. 18:02
Kannski er hér smá pláss lika fyrir mig. Ég þekki vel til þeira þannig að félagslef starf sem ég er að, leyfði mér að bera saman skoladagar, í árínu 2005/06. Þar kom reyndar fram að slóvenskir krakkar og kennarar hafa verið í kenslu stófum heilum 17 dögum meira en íslenskir. Á ekki tölu fyrir skóla ár 06/07.
Andrés
Andrés.si, 10.2.2007 kl. 20:39
Heyr heyr!
Guðlaugur Kristmundsson, 10.2.2007 kl. 21:29
Dekurdagar fyrir kennara er það besta sem ég hef heyrt í langan tíma. Fer með hugmyndina beint inn á næsta kennarafund. Lýst vel á þig frænka.
Lói
Eyjólfur Sturlaugsson, 10.2.2007 kl. 22:39
Ég sem starfandi kennari á unglingstigi grunnskóla er afskaplega ánægður að lesa þetta viðhorf þitt Jóhanna. Um kommentin hér að ofan er allt gott að segja nema ég skil ekki alveg þetta "að þeir væru nú líka að fá mannsæmandi laun ef þeir væru ekki alltaf að hóta og fara í verkfall." Þetta er bara steypa og ég held að allir viti það. Það hefur engri stétt verið boðin mannsæmandi laun án þess að hún hafi þurft að berjast fyrir þeim.
Um miðja síðustu öld höfðu kennarar sömu laun og alþingismenn. Það sýnir að þjóðfélagið mat þá að verðleikum. Er það gert nú? Finnst fólki það í alvöru? Það má heldur ekki gleyma því í umræðunni að það er fullt af kennurum sem vilja kenna börnum, þó svo að þeir geti fengið aðra betur borgaða vinnu. Ég lít á það sem forréttindi að fá að vinna með börnum og unglingum. Það eru ekki allir þegnar þessa lands sem hafa þessi forréttindi og ég vil starfa við þetta. Er það eitthvað óeðlilegt að ég vilji kenna burt séð frá því hvort ég fái betur borgaða vinnu annars staðar? Á sama hátt er fullt af fólki í alls konar þjónustu- og umönnunarstörfum, illa borguðum, sem vilja starfa við þetta þó svo þeir eigi kost á betur launuðum störfum.
Skýrasta dæmið um vesældóm stjórnvalda gagnvart kjaramálum kennara kom upp nú nýverið. Í síðustu kjaraviðræðum kastaði launanefnd ríkisins fram bókun (13.1 minnir mig) þar sem sagt er eitthvað á þá leið að ef almenn kjaraþróun í landinu fer yfir ákveðna prósentutölu á tímabilinu (umfram það sem kjarasamningurinn segir til um) þá skuli endurskoða launaliði samningsins. Kennarar bitu í þessa gulrót og samþykktu samninginn, mjög naumlega þó.
Hvað gerist svo? Frá því að samningurinn var samþykktur gengur í garð eitt mesta hagsældarskeið þjóðarinnar og forsendur fyrir því að ofangreind bókun taki gildi eru löngu fyrir hendi. Fyrir ári áttu laun kennara samkvæmt því sem þar stendur að hækka um 7-8% strax og nú í sumar var það orðið um 14%. Eftir tómt japl, jaml og fuður var hægt að fá ríkið til að setjast niður með kennurum og ræða þessa bókun. Ríkið sagði þvert nei, við bjóðum ykkur 0,75% hækkun og búið. Málið stendur þarna óhagganlegt. Og í framhaldi af því sem hér hefur verið rætt, hvar eru hótanir kennara í þessum efnum?
Kennarar sömdu um þetta atriði í síðasta kjarasamningi og svo segir bara viðsemjandinn nei!! Kennarar eru nefnilega löngu búnir að komast að því að það eru gerðir samningar, undirskrifaðir og innmúraðir, síðan að mati viðsemjandans er allt í lagi að standa ekki við samninginn.
Hvað gerist nú í kjaramálum kennara? Það næsta sem gerist er að kjarasamningurinn rennur út á þessu ári eða næsta, sama steypan verður áfram uppi á borðinu hjá ríkinu, kröfur um þetta og hitt en lítið uppá að bjóða varðandi launin. Hvað eiga kennarar að gera þá? Þegja og halda áfram að vinna með engan gildandi kjarasamning eins og þeir gerðu síðast í fleiri mánuði eða fara í verkfall?
Til fróðleiks þá skal á það bent að í umræðunni verður líka að hafa hugfast þegar verið er að tala um 'kennara' að þeir eru ansi fjölbreyttur hópur sem starfar á mismunandi skólastigum. Launamunur á milli þessara skólastiga er orðinn mjög mikill. Leikskólakennarar, grunnskólakennarar, framhaldsskólakennarar, háskólakennarar, sérskólakennarar og hvað allt þetta heitir eru allir að starfa eftir sitt hvorum kjarasamningnum og launamunurinn á milli þessara skólastiga getur hlaupið á hundruð þúsunda á mánuði sé allt tínt til. Það er ekki það sama að vera 'kennari' og 'kennari' í þessari umræðu. Nóg komið og takk fyrir.
Jóhannes (IP-tala skráð) 12.2.2007 kl. 12:36
Þegar ég skrifaði hér að ofan um eilífar hótanir um verkfall átti ég að sjálfsögðu um verkallshótanir almennt. Launaþróun þeirra hópa sem notað hafa verkfallið hefur nú bara rétt haldist í hendur við hina hópana, sem ekki hafa farið í verkfall (t.d. hjá VR). Berjast, er jú svo sannarlega nokkuð sem menn þurfa að gera til að fá betri laun, en verkfall er sjaldan áhrifaríkt í seinni tíð og veldur oft miklu meiri skaða en af hljótist bót. Eftir að hækkanir launa hafa fengist með verkfallsaðgerðum sitja sjóðir tómir, fjölskyldur ansi nærri gjaldþroti og oft er almenningsálitið á móti þeim líka. Ég er ekki að tala á móti launahækkunum til kennara, enda á ég marga vini og ættingja sem starfa sem kennarar og við skóla og hafa líkt dálæti á starfinu og Jóhannes talar um að hann hafi. Einnig gæti ég hugsað mér að starfa sem slíkur eftir að mínu námi líkur og þykir mér ekki ólíklegt að svo verði. Þetta snýst um leið að settu markmiði og það er ekki bara ein fær leið. Ekki þarf að hugsa lengra til baka en til síðasta árs til að sjá vísbendingar um þá leið sem ég nefndi. Þá fékkst ekki nægt fólk til að fylla stöður ómenntaðra starfsmanna á leikskólum Reykjavíkur og nágrennis. Þetta eru störf sem, líkt og með kennara, þjóðfélagið getur illa verið án. Ekki leið langur tími frá því að þetta barst í fréttir og þar til leikskólar höfðu fengið úthlutuðum meiri pening til að gera störfin vænlegri. Þetta er leið sem þingmenn nota sjálfir um sín störf og þetta er leið sem er vænleg fyrir framþróun launamála kennara. Ekkert verkfall, hærri laun. Hvernig má það vera miðað við staðhæfingu þína hér að ofan? Þarna kom þrýstingurinn að innan ef svo má segja. Börnin og barnabörnin sátu heima og allir fundu fyrir starfsmannaskortinum, þótt ekkert væri verkfallið, enda skynjar maður verkfall sem tímabundið ástand og því ekki eins mikilvægt að leysa það með jafn afgerandi hætti. Semja, pranga og prútta og þeir eru jafnólmir og við að komast aftur til starfa. Í dæminu um leikskólana var bara enginn sem að bíða eftir að komast í vinnuna.Við þurfum að hafa kennara við störf, um það deilir enginn. Ef upp kæmi sú staða á næstu árum að hæft fólk færi einfaldlega í önnur störf, þá neyddist ríkið til að hækka laun stéttarinnar til að fá þetta fólk aftur til baka, þetta eru jú börnin þeirra og barnabörn líka og þá er þrýstingurinn á launabreytinguna frá þeim og þeirra eigin fjölskyldum kominn. Svo að þessu klúðri samninganefndar kennara með að gleypa við bókun um endurskoðun samninga. Ég hélt að allir vissu að slíkir pappírar væru verðlausari en einslags, endurunninn klósettpappír úr Sölumiðstöð varnarliðseigna. Ríkistjórnin hefur notað þetta óþverrabragð á aldraða, öryrkja og eflaust á fleiri hópa (kennara greinilega líka) til að gefa sjálfum sér stundarfrið. Svo er bara blásið á allt saman, enda með dómsúrskurð um að slík loforð séu ekki bindandi. Ef um eitthvað er samið í samningi, stendur það bókfast, nema semjendur semji af sér og hafi þar inni marklausar klausur sem í raun þýða ekki neitt. Er ekki bara kominn tími á nýtt fólk í framvarðasveit kennara til að leiða þessar nýju baráttuaðferðir, líkt og VR gerði fyrir nokkrum árum og tókst vel til.Með kærum, dyggum baráttu- og stuðningskveðjum til þeirra sem sinna hinum verr launuðu störfum kennarastéttarinnar.
Sigfús Örn (IP-tala skráð) 13.2.2007 kl. 14:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.