Fundur vegna stækkunar Alcan

Var á góðum fundi í gærkvöldi í Kænunni í Hafnarfirði þar sem Landsmálafélagið Fram bauð upp á skemmtilegar og málefnalegar umræður. Hallur Helgason var fundarstjórinn og stýrði fundinum af röggsemi. Frummælendur voru Andri Snær og Guðlaugur Þór og við pallborðsumræðurnar bættust Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Haraldur Ólason oddviti sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, Pétur Óskarsson frá Sól í Straumi og Birna Pála Kristinsdóttir frá Alcan.

Lúðvík gaf það skýrt út að ef kosningin okkar segir "já" þá komi ekki til greina að fresta framkvæmdum við stækkun nema að Alcan vilji það sjálft, sama hvað flokksystir hans tautar og raular um frestun.

Andri Snær talaði alltof mikið um álversframkvæmdir á Íslandi sem eina heild. Munurinn er hinsvegar sá að Alcan hefur verið í þessu ferli frá því árið 1999 eða 2000, svo það er ansi mikill munur á að fara að stoppa það eða aðrar framkvæmdir sem verið er að tala um til dæmis í Helguvík og á Húsavík. Andri var reyndar mjög skemmtilegur eins og hans er von og vísa og kom með marga góða punkta og hann er sammála okkur öllum í því að við verðum að hafa fjölbreytt atvinnulíf á Íslandi. Hann vill að kortlagt verði í hvaða greinum við eigum eftir að hasla okkur völl. Hann benti þó á að við erum farin að vera áberandi á ýmsum völlum eins og í gervilimum, dvergkafbátum úr áli, úrum, fötum og fleiru. Það hlýtur þó að vera til margt annað sem við getum gert. 

Guðlaugur Þór kom með góða punkta einnig. Hann benti meðal annars á að ef við værum með kol í staðin fyrir hitaveitu, þýddi það eina milljón tonn af kolum á ári sem myndaði þrjú milljón tonn af koltvísýringi. Ef við værum með kol í stað vatnsorku þýddi það fjögur millljón tonn af kolum og 12 milljón tonn af koltvísýringi. Benti á þá skemmtilegu staðreynd sem ég hef ekki hugsað út í áður, að sá siður að snúa glösum á hvolfi upp í skáp varð til vegna kolaryks, þeim var sem sagt snúið á hvolf svo þau fylltust ekki af kolaryki. Hann sýndi okkur mynd frá árinu 1930 þar sem lá kolaryksský yfir Reykjavík.

Spurningar voru leyfðar úr sal, sem var fullur og vel það, og þær spurningar sem komu voru mjög góðar. Þetta var held ég með málefnalegustu og bestu fundum sem ég hef farið á og mega allir vera stoltir af því sem hann sátu.

Læt þetta duga í bili 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband